Erlent

Annan gagnrýndur í nýrri skýrslu

Í rannsóknarskýrslu sem birt var í gær um olíusöluáætlun Sameinuðu þjóðanna í Írak segir að ekki liggi fyrir nægilegar sannanir fyrir því að Kofi Annan, framkvæmdastjóri SÞ, hafi vitað að svissneskt fyrirtæki, sem sonur hans þáði laun hjá, sæktist eftir verkefnasamningum í tengslum við áætlunina. En Annan er gagnrýndur fyrir að hafa ekki séð til þess að allar upplýsingar varðandi tengsl sonar hans við fyrirtækið væru uppi á borðinu. Í skýrslunni er fyrirtækið, Cotecna Inspection S.A., og sonur Annans, Kojo, sökuð um að reyna að leyna tengslunum sem voru á milli þeirra er fyrirtækinu var úthlutað verkefninu. Niðurstaða skýrslunnar er ekki sá hvítþvottur sem Annan eldri hafði vonast eftir. Hann er þó ekki sakaður um spillingu eða bein mistök í starfi. En áfellst er að hann skyldi ekki grípa til ráðstafana til að koma skikki á stjórnun olíusöluáætlunarinnar, sem var á hans ábyrgðarsviði. Rannsókn á viðskiptum Kojo Annans í tengslum við hana er ekki lokið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×