Innlent

Vorið kemur fyrr á hverju ári

"Við höfum tekið eftir því undanfarin fimm eða sex ár að vorkoman er alltaf fyrr á ferðinni," segir Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður Rannsóknarstöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá. Hann segir aðeins farið að örla á brumi hjá sumum trjátegundum. Eva G. Þorvaldsdóttir, forstöðumaður Grasagarðs Reykjavíkur, segir vorplöntur vera komnar miklu fyrr af stað en áður var talið eðlilegt. Þetta sjáist á vorlaukum sem þegar séu farnir að blómgast og þá séu krókusarnir komnir á skrið, svo og vorboðinn og skógarblámi. Eva bendir á að blómgun nú sé þremur vikum fyrr á ferðinni ef litið sé á blómgunartölur frá árinu 2002. Hún segist þó ekki hafa áhyggjur af þróuninni, það verði bara að taka henni. Að mörgu leyti sé hún ánægjuleg fyrir ræktunarfólk því hægt sé að prófa suðlægari tegundir, hins vegar sé það erfitt vegna þess að alltaf geti komið frostakafli. Einnig sé neikvætt að hafa ekki snjó á veturna þar sem hann hlífi plöntunum. Þá hafi umhleypingar áhrif á plöntur þegar jarðvegur er auður og litlar plöntur lyftist upp. Aðalsteinn hefur svipaða sögu að segja og telur að hlýrri vetur auki hættuna á skemmdum á trjágróðri vegna vorhreta en á síðustu tveimur vorum urðu skemmdir á sumum trjátegundum. Hins vegar segir Aðalsteinn að á móti komi að sumrin séu löng og mun hlýrri en áður sem geri skemmdum trjágróðri kleift að jafna sig. Hann segir breytingar í veðurfari geta haft áhrif á framtíðarval á trjátegundum til ræktunar þar sem ákveðnar trjátegundir eins og rússalerki og síberíulerki fari halloka. Aðalsteinn segist ekki hafa áhyggjur af þróun veðurfars fyrir trjágróður á Íslandi þar sem aðlögunargetan sé mikil hjá trjágróðrinum og í skógræktinni. Örlítil hækkun á hita sé bara til að bæta lífsskilyrði trjánna. "Séð frá þessu mjög þrönga sjónarhorni skógræktarinnar þá er gott að það hlýni," segir Aðalsteinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×