Innlent

Eru forviða á meðferð gagna

Þjóðþekktir menn, sem nafngreindir eru í gögnum frá sýslumanninum í Reykjavík sem fundust á bak við skrifstofur hans í Skógarhlíð, eru forviða á að skjölin skuli ekki vera betur geymd en raun ber vitni. Möppur sem lágu eins og hráviði á bak við húsnæði Sýslumannsembættisins í Reykjavík geymdu nöfn hundruð manna sem tengd eru mála, sem embættið tók fyrir á árunum 1992 til 1994, svo sem forræðisdeilum, meðlagsdeilum, skilnaðarmálum og faðernismálum. Fréttastofan hefur rætt við ýmsa þjóðþekkta menn sem nefndir eru í skjölunum, bæði í fjölmiðlum og stjórnkerfinu og eru þeir forviða á því að slíkar upplýsingar skuli ekki vera betur geymdar hjá Sýslumannsembættinu en raun ber vitni. Enginn þeirra vill koma fram undir nafni í tengslum við þetta mál en einn þeirra sagðist ætla að senda sýslumanninum kvörtunarbréf þegar í stað. Sýslumaðurinn í Reykjavík hóf rannsókn málsins í morgun og óskaði hann eftir að fá möppuna sem Stöð 2 hefur undir höndum afhenta. Fréttastofan varð við þeirri beiðni og var sýslumanni afhent mappan rétt fyrir hádegi. Sýslumaður vildi ekkert segja um málið á þeirri stundu en sagði að það yrði rannsakað til hlítar. Ekki hefur tekist að ná sambandi við forstjóra Persónuverndar vegna málsins en samkvæmt upplýsingum sem fengust frá embættinu í morgun, verður málið tekið til athugunar. Þegar sjúkragögn fundust á víðavangi skrifaði Persónuvernd Landspítalanum og krafðist skýringa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×