Erlent

Hundruð farast við Indlandshaf

Stór jarðskjálfti varð á botni Indlandshafs vestur af ströndum Súmötru í Indónesíu síðdegis í gær, skammt frá upptökum hamfaraskjálftans sem varð á annan í jólum. Íbúar strandhéraða landanna í kring flúðu í skelfingu inn í land er fréttir af nýja skjálftanum bárust, af ótta við að önnur eins flóðbylgja riði yfir og þremur mánuðum fyrr. Ótti um nýjar hamfarir fjaraði hins vegar fljótt út eftir að það fréttist að engrar flóðbylgju hefði orðið vart er þrír til fjórir tímar voru liðnir frá því skjálftinn reið yfir. "Það lítur út fyrir að skjálftinn hafi ekki valdið neinni flóðbylgju," hefur AP-fréttastofan eftir Prihar Yadi, jarðfræðingi við jarðvísindastofnun Indónesíu. Í kjölfarið afturkölluðu yfirvöld flóðbylgjuviðvörun sem þau höfðu gefið út. Á þeim svæðum sem næst voru skjálftamiðjunni varð þó nokkurt tjón. Hús hrundu á eynni Nias, sem er eftirsóttur dvalarstaður brimbrettafólks. Héraðsyfirvöld tilkynntu að um 300 manns væru grafin undir rústunum. Að sögn bandarísku jarðvísindastofnunarinnar varð skjálftinn klukkan 16.09 að íslenskum tíma og mældist 8,7 á Richter-kvarða að styrkleika. Skjálftamiðjan var á um 30 kílómetra dýpi um 410 km suðvestur af borginni Banda Aceh á Súmötru, sem varð mjög illa úti af völdum flóðbylgjunnar 26. desember. Frá skjálftamiðjunni eru þó innan við 200 km að strönd Súmötru og aðrar minni eyjar eru mjög nálægt henni, Nias þar á meðal. Skjálftinn telst vera eftirskjálfti eftir stóra skjálftann á annan í jólum, sem var 9 á Richter. Það var sterkasti jarðskjálfti sem mælst hefur á jörðinni síðastliðin 40 ár. Flóðbylgjan sem hann kom af stað olli gríðarlegri eyðileggingu í strandhéruðum landa allt í kringum Indlandshaf. Að minnsta kosti 174.000 manns biðu bana og yfir 100.000 er enn saknað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×