Innlent

Ríkisborgararéttur ekki í hættu

Ekki er hægt að ógilda ríkisborgararétt Bobby Fischer á þeim forsendum að hann hafi gerst sekur um niðrandi ummæli í garð gyðinga á blaðamannafundinum á Hótel Loftleiðum á föstudaginn var. Þetta segir Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður. Wiesenthal-stofnunin í Jerúsalem sendi frá sér yfirlýsingu í fyrradag þar sem hún skorar á íslensk stjórnvöld að ógilda ríkisborgararétt Bobby Fischer. Efraim Zuroff, forstjóri stofnunarinnar, vísar þar til framgöngu Fischers á blaðamannafundinum. Að sögn Ragnars er ákvæði í almennum hegningarlögum sem kveður á um að niðrandi ummæli í garð trúarhópa og kynþátta séu refsiverð. Ekki er langt síðan ungir menn úr hópi þjóðernissinna viðhöfðu slík ummæli í garð litaðra og hlutu dóm á grundvelli þessara laga. Eins og fram kom í Fréttablaðinu á laugardag átti Fischer í harðri orðahríð við blaðamann sem er gyðingur. Hann sagði föður blaðamannsins gyðinganöðru og viðhafði önnur ljót orð um gyðinga. Að sögn Sæmundar Pálssonar er verið að hjálpa Fischer að vinna úr heift sinni svo hann láti af slíkri hegðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×