Innlent

Vörður gætir kviksyndis í Kópavogi

Vörður hefur verið settur við fjöruna í Kópavogi þar sem stúlka var hætt komin þegar hún sökk upp undir hendur í kviksyndi. Bæjarstjórinn þakkar guði að ekki fór verr. Ellefu ára stúlka var í lífshættu þegar hún sökk í fjörusandinn neðan við Vesturvör í Kópavogi í fyrradag þegar hún var að leita að skeljum. Björgun á eftir að fylla upp í svæðið með sandi en þangað til er um hreinasta kviksyndi að ræða. Hansína Á Björgvinsdóttir, bæjarstjóri Kópavogi, er slegin. Hún segist líta atburðinn mjög alvarlegum augum og hún þakki guði fyrir að barnið hafi bjargast við þær erfiðu aðstæður sem það hafi verið í og hún líti nánast á það sem kraftaverk. Gripið var til aðgerða í kjölfar fréttar Stöðvar 2 um málið. Maður frá Björgun hefur verið á vakt á svæðinu frá því klukkan ellefu í morgun og í nótt eða á morgun verður fyllt upp í fjöruna. Hansína segir að menn hafi ekki gert sér grein fyrir hættunni, annars hefðu þeir gengið betur frá svæðinu. Nú sé vakt á svæðinu og svo verði fyllt upp í kviksyndið svo hættan verði ekki lengur fyrir hendi. Hansína segir enn fremur að þær hættulegu aðstæður sem hafi skapast verði einungis þegar háfjara sé. Það vilji þannig til á Ísandi að sjórinn sé varhugaverður og þegar háfjara sé skapist oft aðstæður sem séu hættulegar bæði mönnum og málleysingjum. Menn verði að gæta þess að vatnsföll og sjór séu ekki hentug leiksvæði fyrir börn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×