Innlent

Segir um eftirskjálfta að ræða

Skjálftinn á Súmötru er talinn vera eftirskjálfti frá stóra skjálftanum sem varð annan dag jóla. Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði, segir hann 20-30 sinnum orkuminni en skjálftann um jólin. Þótt íbúar á Súmötru hafi fundið meira fyrir skjálftanum í dag en þeim sem varð á annan í jólum telja sérfræðingar hann valda minni skaða. Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði, segir að skjálftinn sé að sjálfsögðu stór. Þegar hann sé borinn saman við skjálftann á annan dag jóla teljist hann þó lítill, þetta sé eins konar eftirskjálfti eftir þann skjálfta. Aðspurður um skemmdir eða eyðileggingu segir Páll ómögulegt að segja til um það á þessari stundu. Skjálftinn eigi upptök við suðurendann á því sem brotnað hafi upp á annan jóladag. Það brot víkki því út til suðausturs. Páll segir svæðið á Súmötru sem næst sé skjálftanum afskekkt og fréttir af tjóni á svæðinu hafi borist mörgum dögum eftir skjálftann annan dag jóla. Aðspurður hvort hætta sé að flóðbylgju segir Páll að sú hætta sé alltaf fyrir hendi þegar svo stór skjálfti verði en hún sé þó ekki nærri því eins mikil og á jólunum. Það hafi verið óvenjulega stór skjálfti sem þá hafi riðið yfir. Ef orkan í skjálftunum tveimur sé borin saman komi ljós að skjálftinn á annan dag jóla sé 20-30 sinnum orkuríkari en skjálftinn í dag. Páll segir að ef flóðbylgja fylgi skjálftanum í dag muni hún að mestu leyti fara til suðurvesturs, þ.e. meira til suðurs en bylgjan á jólunum, sem þýðir að hún fari út á opið Indlandshaf og valdi minna tjóni en ella.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×