Innlent

Oft hafa sést fleiri í brekkunum

Um páskana nýta iðulega margir tækifærið og renna sér á skíðum í fjöllum landsins. Talsverð hlýindi settu strik í reikninginn í ár og voru nokkur skíðasvæði lokuð. Skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins í Bláfjöllum, í Skálafelli og á Hengilsvæðinu voru lokuð um páskahelgina. Á Ísafirði var ein af þrem skíðalyftum svæðisins opin og þurfti skíðafólk að láta ferja sig upp á Botnsheiði til að renna sér niður að Miðfellslyftu sem er fremsta lyftan. Skíðagöngulyftan í Seljalandsdal var opin en þar er nægur snjór og góð aðstaða fyrir skíðagöngu. Skíðavæði Tindastóls á Sauðárkróki var opið alla páskahelgina og boðið upp á fjölbreytta dagskrá eins og brettabrun og snjófígúrukeppni. Skíðasvæðið á Dalvík var opið um helgina en samkvæmt starfsmönnum svæðisins hafa oft fleiri sést skíða þar um páskana. Sama var uppi á teningnum í Stafdal á Seyðisfirði. Þar hafa oft sést fleiri, en stóra lyftan var opin þar alla páskana nema föstudaginn langa. Einnig var skíðasvæðið á Siglufirði opið alla páskana. Hlíðarfjall á Akureyri var opið alla dagana nema í gær en þar verður væntanlega ekki opið næstu daga sökum snjóleysis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×