Innlent

Óvenjuleg hlýindi um páskana

Óvenjuleg hlýindi hafa verið um þessa páska og mælst hæstur hiti í mars frá árinu 1965. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, hefur rýnt í hitatölur og segir að páskarnir séu snemma í ár og því þurfi að skoða ofan í kjölinn hvort ekki hafi orðið hlýrra á páskum. Það sé ekki ólíklegt þegar páskarnir hafi verið seint, um miðjan apríl þegar farið sé að vora. Á laugardaginn fyrir páska mældist hitinn yfir 15 stig á Norðurlandi, bæði á Dalvík og á Sauðanesvita við Siglufjörð. Á páskadag urðu hlýindin mest í Borgarfirði, þar varð hitinn hæstur 17,3 stig á Húsafelli. Er það hæsti hiti sem mælst hefur í marsmánuði í Borgarfirði. Áður hafði hitinn orðið mestur 15,2 stig í Síðumúla í Hvítársíðu 31. mars 1965. Þann sama dag fór hitinn í 17,9 stig á Sámsstöðum í Fljótshlíð, sem er hæsti mældi hiti marsmánaðar hér á landi, a.m.k. frá árinu 1923. Á Norðurlandi var álíka hlýtt nú og fyrir tveimur árum, en 27. mars 1948 var heldur hlýrra norðanlands. Einar telur að skíðatíðin hljóti að vera á enda eða því sem næst. Hann segir að miðað við útlitið næstu daga verði lítið lát á blíðviðrinu. Vindar séu suðlægir og suðaustlægir og tiltölulega hlýtt verði fram eftir vikunni. Vindurinn gæti þó snúsit í norðaustanátt í skamman tíma, um og eftir næstu helgi, en það séu engin óyggjandi merki um það enn þá. Einar segist sjálfur ætla að ganga frá sínum skíðum í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×