Erlent

Segja fjara undan andspyrnu

Það fjarar undan andspyrnuhreyfingunni í Írak samkvæmt skýrslum leyniþjónusta í Miðausturlöndum sem telja þó að ofbeldi setji mark sitt á lífið í landinu næsta áratug. Andspyrnan hefur nú náð hámarki og það er tekið að halla undan fæti, segir í skýrslunum sem dagblaðið Guardian hefur komist yfir. Það segir að líklega haldi ofbeldisverk áfram um ókomna tíð en að krafturinn sé mjög farinn úr andspyrnunni eftir kosningarnar í janúar auk þess sem hermt er að viðræður við valdamenn meðal súnníta hafi skilað nokkrum árangri. Þær viðræður, sem farið hafa fram með mikilli leynd, eru ekki síst ætlaðar til þess að valda klofningi meðal ólíkra hópa andspyrnumanna og hryðjuverkamanna. Í skýrslum leyniþjónustanna er greint frá atvikum sem benda til þess að það hafi tekist. Leiðtogar al-Dulaimi ættflokksins, sem er andsnúinn hersetuliðinu, drápu nýlega hóp erlendra baráttumanna þar sem þeir áttu aðild að morðinu á ættingja sem starfaði fyrir hersetuliðið. Í síðustu viku réðst hópur vegfarenda og verslanaeigenda á þrjá hettuklædda menn sem skutu í kringum sig á gangandi fólk. Hettuklæddu mennirnir voru drepnir á staðnum. Í bænum Wihda töldu bæjarbúar að hópur skæruliða legði á ráðin um árás þar svo að gripið var í taumana og skæruliðarnir drepnir. Þrátt fyrir þetta telja höfundar leyniskýrslnanna að ofbeldisverk verði áfram vandamál í Írak að líkindum næsta áratug eða svo. Í morgun mátti sjá merki þess því þá fórust sjö þegar sjálfsvígsmaður ók bifreið upp að hópi sjíta sem voru að bæn og sprengdi sig í loft upp. Níu særðust.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×