Innlent

Flöskuskeytið rúmum 17 árum yngra

Sendandi flöskuskeytis frá Grænlandi undrast að það skyldi berast alla leið til Íslands. Það var samt bara hálft ár á leiðinni - ekki átján - og er því mun yngra en talið var og greint var frá í fréttum Stöðvar 2 í gær. Það var sent frá suðvesturströnd Grænlands í október í fyrra. Eina ártalið í bréfinu er 1987 en það er fæðingarár sendandans, Ellenar Dorphs, en ekki dagsetning bréfsins. Stöð 2 ræddi við Ellen í síma í dag og sagði hún mjög ánægjulegt að hafa sent flöskuskeytið. „Ég trúði því ekki fyrst að skeytið bærist svona langt. Nú trúi ég því,“ sagði Ellen. Írena Kristjánsdóttir, litla stúlkan sem fann skeytið í fjörunni við Straumsvík í Hafnarfirði, lætur sig einu gilda þótt skeytið sé yngra en talið var; henni finnst bara gaman að haft var uppi á sendandanum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×