Innlent

Hvarf næstum sporlaust

Litlu mátti muna að 11 ára gömul stúlka í Kópavogi hyrfi sporlaust í fjörunni við Vesturvör í gær. Þar hefur myndast kviksyndi á uppfyllingarsvæði Björgunar.   Kristján Jóhannesson, faðir stúlkunnar, Tinnu Aspar, segir að augljóst sé að þetta hefði getað farið mjög illa. Hann og móðir Tinnu tilkynntu atvikið til lögreglunnar sem varar við að börn séu að leika sér á svæðinu við Vesturvör í Kópavogi. Sandurinn er mjög gljúpur og þarf ekki mikinn þunga til að sökkva. Kristján segir Tinnu hafa sokkið alveg upp undir hendur í sand og drullu. „Ég eiginlega veit ekki hvernig hún komst upp úr - hvort hún hafi náð að botna á steini eða einhverju slíku. En ég þakka bara fyrir að hún komst heim,“ segir Kristján og bætir við að stúlkan hafi verið dauðskelkuð þegar heim var komið.  Tinna segist hafa sokkið þegar hún var að leita að skeljum og þá hafa sparkað með fótunum og kraflað sig upp með höndunum. Viðvörunarskilti eru á svæðinu en faðir Tinnu segir að réttast sé að girða svæðið af því ekki kunni öll börn að lesa. Talsmaður Björgunar, sem stjórnar uppfyllingunni, lofar að gengið verði tryggilega frá svæðinu þegar eftir helgi. Það sé klúður að ekki hafi verið gengið betur frá. Hann segir þetta í annað sinn á fimm mánuðum sem barn sekkur í sandinn á framkvæmdasvæði Björgunar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×