Innlent

Sýslumaður segir þetta mistök

Sýslumaðurinn í Reykjavík segir mistök valda því að möppur með viðkvæmum upplýsingum lágu fyrir hunda og manna fótum á bak við skrifstofu embættisins. Slík gögn eigi ekki að liggja á glámbekk, þeim eigi skilyrðislaust að eyða. Möppur með viðkvæmum upplýsingum um einkamál fólks funndust aftan við húsnæði Sýslumannsins í Reykjavík fyrir stuttu en frá þessu var greint í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi. Í einni möppunni má finna upplýsingar um faðernismál, meðlagsmál, skilnaðarmál og forræðismál. Í henni eru nöfn hundruð einstaklinga sem þurft hafa að reka sín mál fyrir Sýslumanninum í Reykjavík og meðal annars er í möppunni að finna nöfn þjóðþekktra einstaklinga. Rúnar Guðjónsson, sýslumaður í Reykjavík, segir að öllum gögnum sem komi frá Sýslumannsembættinu sé skilyrðislaust eytt. Hann kveðst ekki hafa nokkra skýringu á því að mappan hafi fundist á bak við húsið. Skýrar reglur séu til staðar um að trúnaðargögnum sem fargað er skuli eytt. „Mér er auðvitað erfitt um vik þessa dagana að rannsaka þetta til hlítar þar sem það eru páskar en ég mun fara gaumgæfilega ofan í þessi mál strax eftir helgi,“ segir Rúnar. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×