Innlent

Aðstoðarritstjórinn telur fréttamenn hafa brotið siðareglur BÍ

Jón Kaldal, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, telur fréttamenn Stöðvar 2 hafa brotið gegn siðareglum Blaðamannafélags Íslands með framgöngu sinni í fyrrakvöld þegar Bobby Fischer kom til landsins. Í leiðara Fréttablaðsins, "Sjálfsmark fréttastofu" gagnrýnir Jón Kaldal framkomu þeirra fulltrúa Stöðvar 2 sem komu að beinni útsendingu frá viðburðinum, ekki síst þátt fréttastjóra Stöðvar 2, Páls Magnússonar. Jón Kaldal segir í leiðaranum að fréttastofa Stöðvar 2 hafi "sölsað undir sig komu Bobby Fischer til Íslands og ekki aðeins ýtt til hliðar öðrum fjölmiðlum heldur einnig þeim mönnum sem hafa lagt á sig mikla vinnu til þess að fá Fischer lausan úr varðhaldi í Japan og greiða götu hans hingað til lands." Þá segir Jón Kaldal að framkoma fréttamannanna Kristján Más Unnarssonar og Ingólfs Bjarna Sigfússonar í beinni útsendingu fréttastofunnar hafi verið þeim til minnkunnar og hljóti að vera klárt brot á 1. grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands. Síðar í leiðaranum segir Jón Kaldal; "þáttur fréttastjórans Páls Magnússonar í þessari uppákomu er kapítuli útaf fyrir sig. Hann stígur inn í atburði sem þátttakandi og gerandi í stað þess að standa fyrir utan þá og flytja af þeim fréttir. Og sá gjörningur að nýta sér kostun Baugs (aðaleiganda þess fjölmiðlafyrirtækis sem Páll starfar fyrir) á einkaþotu undir Fischer til þess að skapa sér forskot á frétt, er auðvitað dæmi um svo undarlega dómgreind að maður verður nánast orðlaus." Rétt er að taka fram að bæði Fréttablaðið og Stöð 2 eru í eigu sömu aðila. Hér má lesa grein Jóns Kaldal í heild



Fleiri fréttir

Sjá meira


×