Innlent

Fannst ég frjáls þegar ég sá Sæma

Bobby Fischer lýsti væntumþykju sinni til Sæmundar Pálssonar á blaðamannafundi sem haldinn var á Hótel Loftleiðum í gærdag. Fischer sagðist fyrst hafa fundist hann vera frjáls þegar hann sá Sæmund í Kaupmannahöfn. Fischer kom til landsins með einkaþotu á fimmtudagskvöldið. Vel á annað hundrað manns voru á Reykjavíkurflugvelli þegar þotan lenti, þar af var fjöldi erlendra sem innlendra fjölmiðlamanna. Hann gaf þó engum nema Stöð 2 færi á viðtali fyrr en blaðamannafundurinn var haldinn í gær. Á fundinum kvaðst Fischer vera afar sæll með að vera kominn til Íslands. "Hér er hreint og gott loft, nóg rými og góður matur." Bandarísk yfirvöld hafa lýst vonbrigðum yfir ákvörðun íslenskra stjórnvalda að veita Fischer íslenskan ríkisborgararétt. Fischer sagðist ekki hafa áhyggjur af því að vera eftirlýstur í Bandaríkjunum. "Við skulum bara bíða og sjá hvað þeir gera," sagði hann. Hvað framtíðina varðar kvaðst hann helst vilja einbeita sér að því að klára skákklukkuna sem hann væri að hanna og ljúka við bók sem hann hefur lengi unnið að um nýstárlega taflmennsku. Svo ætlar hann að huga að sínum áhugamálum eins og ferðalögum og samræðum. Um áform unnustu sinnar vildi hann ekki ræða. Fischer hefur verið gagnrýndur fyrir öfgakenndar skoðanir sínar á ýmsum málefnum. Á fundinum vandaði hann ekki gyðingum kveðjurnar. "Þeir hafa rænt mig eigum mínum, til dæmis gögnunum sem ég var kominn með í taflbókina mína, þeir eru meira að segja búnir að ræna mig nafninu og nota það til að græða á því." Einar S. Einarsson úr stuðningsnefnd Bobby Fischer hefur gagnrýnt framgöngu Páls Magnússonar, fréttastjóra Stöðvar 2, við komu skákmeistarans á Reykjavíkurflugvöll. Hann lýsti því sem svo að engu væri líkara en sjónvarpsstöðin hefði rænt honum svo enginn annar fjölmiðill fengi aðgang að honum. Spurður sagði Fischer að það hefði verið ákvörðun sín og allra sem í hlut áttu að fara beinustu leið af vettvangi við komuna án þess að tala við fjölmiðla eða menn úr stuðningsnefndinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×