Sport

Króatar lögðu Íslendinga

Nú rétt í þessu var leik ungmennalandsliða Króatíu og Íslands ytra að ljúka og urðu lokatölur 2-1 heimamönnum í vil. Króatar skoruðu sigurmarkið 10 mínútum fyrir leikslok. Það var Vladen Bastilovic sem skoraði sigurmarkið, en hann var nýkominn inn á sem varamaður. Sending kom frá hægri og skaut Bastilovic óverandi skoti í markið. Slaven Bilic, þjálfari króatíska liðsins, breytti úr leikkerfinu 4-4-2 yfir í 3-5-2 og er óhætt að segja að breytingarnar hafi góð áhrif á liðið. Hannes Þ. Sigurðsson fékk reyndar sannkallað dauðafæri til að jafna metin á síðustu mínútu leiksins en því miður brást honum bogalistin. Á heildina séð var frammistaða íslensku strákanna mjög góð og var íslenska liðið sterkari aðilinn í leiknum ef eitthvað var. Króatar hafa unnið alla fjóra leiki sína í riðlinum og tróna á toppnum með 12 stig, en Íslendingar eru með 6 stig eftir fimm leiki. Það var Keflvíkingurinn Ingvi Rafn Guðmundsson sem hafði komið Íslendingum yfir á 43. mínútu en Króatar jöfnuðu í uppbótartíma. Mark Ingva var einkar laglegt en hann fékk stungusendingu frá Hannesi Sigurðssyni og lagði boltann auðveldlega fram hjá króatíska markverðinum. Króatíska liðið var meira með boltann í fyrri hálfleik en flest færin féllu íslenska liðinu í skaut. Ísland ætti í raun að vera 2-1 yfir því mark var dæmt af Sigmundi Kristjánssyni á 41. mínútu en markið skoraði Sigmundur beint úr aukaspyrnu og virtist enginn vita á hvað dómarinn var að dæma. Í síðari hálfleik átti íslenska liðið m.a. skot í tréverk heimamanna en því miður vildi boltinn ekki inn þrátt fyrir nokkur fín marktækifæri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×