Erlent

Flugvél hrapaði í Viktoríuvatn

Átta manna áhöfn lést þegar flutningavél steyptist ofan í Viktoríuvatn skömmu eftir flugtak frá Mwanza-flugvelli í Tansaníu seint í gærkvöld. Flugvélin var af gerðinni Ilyushin-76 og var skráð í Moldóvu en hún var á leiðinni til Khartúm, höfuðborgar Súdans, með fisk. Ekki er ljóst hvað olli því að hún hrapaði en skömmu eftir flugtak missti flugturninn samband við vélina og hún hvarf af ratsjá. Um klukkustund síðar tilkynntu fiskimenn á Viktoríuvatni að þeir hefðu fundið flak vélarinnar fljótandi á vatninu. Kafarar hafa fundið lík af þremur úr áhöfninni en ekki liggur fyrir af hvaða þjóðerni fólkið er. Ekki er nema vika síða flutningavél á vegum Ethiopian Airlines brotlenti á Viktoríuvatni þegar hún hugðist lenda á Entebbe-flugvelli í Úganda. Áhöfnin í þeirri vél slasaðist alvarlega en komst þó lífs af.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×