Innlent

Straumur frá landinu fyrir páskana

Tæplega fimmtán prósentum fleiri fara til útlanda um páskana nú en í fyrra að sögn framkvæmdastjóra Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Straumurinn er mestur til sólarlanda við Miðjarðarhafið og Bandaríkjanna. Um Reykjavíkurflugvöll er nánast einstefna frá Reykjavík og eru flestir á leið til Ísafjarðar og Akureyrar. Höskuldur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, segir mikinn straum fólks liggja úr landinu yfir páskana. Flestir fóru síðasta föstudag eða á fjórða þúsund manns en eins fóru margir laugardag og sunnudag. Hann segir flesta vera fara til sólarlanda við Miðjarðarhafið, til Portúgals og Kanaríeyja. Þá fara einnig margir til Bandaríkjanna. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Flugleiða, tekur undir með Höskuldi og segir gríðarlega sætanýtingu vera í öll flug félagsins og að nánast öll sæti síðustu daga og næstu daga séu skipuð. Umferð um Reykjavíkurflugvöll er mikil og er nánast einstefna frá Reykjavík, mest til Akureyrar og Ísafjarðar. Um 1200 farþegar eru skráðir til og frá Akureyri og um 800 til og frá Ísafirði. Hafdís Sveinsdóttir, vaktstjóri hjá Flugfélagi Íslands á Reykjavíkurflugvelli, segir á milli 1400 til 1500 manns fara um flugvöllin í dag ef veður haldi fram eftir kvöldi og má búast við að um eitt þúsund fari um völlinn á morgun. Þó að nokkuð mikil flugumferð hafi verið bæði á Reykjavíkur- og í Keflavíkurflugvelli ferðast þó vafalaust flestir á einkabílum um páskana. Erfiðara er þó að áætla fyrir fram hversu margir hafa þann háttinn á.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×