Innlent

Stjórnarmenn og makar fengu laun

Nálega helmingur þeirra sem fengu úthlutað árslaunum úr Launasjóði myndlistarmanna í ár er í stjórn Sambands íslenskra myndlistarmanna eða í sambúð með meðlimum úthlutunarnefndar. Formaður úthlutunarnefndar segist ekki vita hverjir séu í stjórninni sem tilnefndi hann í nefndina. Listamannalaunum var úthlutað fyrir mánuði. Rúmlega 230 sóttu um laun myndlistarmanna en einungis 30 slík laun voru til skiptanna. Athygli vekur að úthlutunarnefndin veitti þremur stjórnarmönnum úr Sambandi íslenskra myndlistarmanna laun, en það voru einmitt þeir menn sem skipuðu í úthlutunarnefndina. Þessum þremur stjórnarmönnum voru veitt árslaun en tíu slík voru til skiptanna. Þá veitti úthlutunarnefndin eiginmanni formanns stjórnarinnar laun til sex mánaða og þar að auki var sambýliskonu eins meðlima úthlutunarnefndarinnar úthlutað launum til eins árs. Það par hefur reyndar fengið árslaun til skiptis síðastliðin þrjú ár. Kristinn G. Harðarson, formaður úthlutunarnefndar, segir að kannski líti þetta ekki vel út en hann hafi ekki vitað hverjir hafi verið í stjórn Sambands íslenskra myndlistarmanna. Formaður sambandsins hafi haft samband við hann og spurt hann hvort hann vildi vera í nefndinni og svo hafi hann fengið bréf frá menntamálaráðuneytinu sem hafi staðfest það. Hann hafi ekki vitað hverjir hafi verið í stjórninni. Tryggvi Ólafsson, sem er einn þekktasti listamaður þjóðarinnar, sótti um listamannalaun og fékk synjun. Ferill Tryggva spannar áratugi og hefur hann einu sinni fengið listamannalaun. Einn stjórnarmanna í Sambandi íslenskra myndlistarmanna sagðist í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 í dag skammast sín fyrir kollega sína fyrir að hafa synjað umsókn listamanns á borð við Tryggva. Kristinn segir að Tryggvi sé mjög frambærilegur listamaður og það séu líka ýmsir sem hefðu átt að fá listamannalaun. Hann geti ekki svarað þessu öðruvísi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×