Innlent

Ísafjörður og Akureyri vinsæl

Ísafjörður og Akureyri eru vinsælustu áfangastaðirnir um páskana. Á báðum stöðum verður hægt að fara á skíði og skipulögð dagskrá verður í boði. Flugfélag Íslands flýgur margar aukaferðir til Akureyrar og Ísafjarðar um páskana. Til Ísafjarðar eru bókaðir um 800 farþegar um páskana og til Akureyrar eru um 1200 farþegar bókaðir. „Skíðavika Ísfirðinga“ fagnar 70 ára afmæli um þessar mundir og verður hún sett á morgun klukkan fimm í miðbæ Ísafjarðar þar sem keppt verður í sprettskíðagöngu. Á laugardag verður einnig tónlistarhátíðin „Aldrei fór ég suður“ þar sem um tónlistin mun hljóma í hálfan sólarhring. Rúnar Óli Karlsson, sem situr í framkvæmdanefnd fyrir skíðavikuna, segir gesti geta skemmt sér vel á hátíðinni. Hann hefur sjaldan orðið vitni að öðrum eins áhuga og núna og fyrir utan allan þann fjölda sem eigi pantað flug vestur gerir Rúnar ráð fyrir að margir komi akandi í þeirri góðu færð sem núna er. Á móti kemur að snjórinn er lítill en þó er ein skíðalyfta opin að sögn Rúnars. Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður skíðasvæða Akureyrar, segir að fólk komist á skíði og að mikið sé um að vera á Akureyri um páskana. Mikið sé um menningarviðburði um allan bæ. „Það hafa verið hlýindi undanfarna daga en það er ágætis skíðafæri þar sem snjórinn er,“ segir Guðmundur. Hann segir veðurspána ágæta og því ekkert því til fyrirstöðu að skella sér á skíði eða snjóbretti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×