Innlent

Undirbúa kvörtun til ESA

Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka iðnaðarins, segir að ný lög um olíugjald, sem taka gildi 1. júlí næstkomandi, feli í sér ólögmæta mismunum á skattlagningu ökutækja. Samtök Iðnaðarins muni væntanlega vísa málinu til eftirlitsstofnunar EFTA, ESA. Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri samtakanna, segir að verið sé að vinna lögfræðilega úttekt og kanna hvort lagasetningin standist jafnræðisreglu EES samningsins. Niðurstöðu hennar sé að vænta fljótlega. Með lagabreytingunni sem samþykkt var síðastliðið vor verða 45 krónur lagðar á hvern lítra af dísilolíu. Skattlagningin byggist þá ekki á sérstökum þungaskatti heldur er öll olía sem nothæf er á ökutæki skattlögð, nema gerð sé sérstök undanþága. Eru dísilbílar þá skattlagðir með svipuðum hætti og bensínbílar. Hafa mörg samtök atvinnurekenda mótmælt þessari leið og segja skattbyrði rekstraraðila aukast við þessa breytingu. "Að auki verður lagt sérstakt kílómetragjald á bifreiðar og vagna sem eru þyngri en tíu tonn. Með öðrum orðum verða þessar atvinnubifreiðar komnar í tvöfalt kerfi skattlagningar um mitt þetta ár," sagði Vilmundur á iðnþingi á föstudaginn. Í sumum tilvikum hækki álögur um 10-20% en margfaldist í öðrum tilvikum. Bílar sem aka stuttar vegalengdir yrðu þá harðast úti. Sveinn Hannesson segir að verið sé að færa skattbyrðina meira á eigendur þyngri ökutækja. Samtök iðnaðarins vilji ekki tvöfalt kerfi. Í því felist bullandi mismunun og að auki séu líkur á því að þetta fyrirkomulag verði aflagt eftir nokkur ár. Evrópusambandið stefni að því að innheimta notkunargjöld af bifreiðum fyrir hvern ekinn kílómetra en ekki með olíugjaldi. Þetta sé auðveldara með nýrri tækni og muni koma til framkvæmda á árunum 2008-2009. Í kjölfarið verði væntanlega farin sama leið hér á landi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×