Innlent

Hallgrímur aftur til Kabúl

Hallgrímur Sigurðsson, fyrrverandi yfirmaður Kabúlflugvallar í Afganistan, er aftur kominn til starfa á flugvellinum í Kabúl á vegum íslenska ríkisins. Aðeins eru fjórir mánuðir síðan utanríkisráðuneytið kallaði Hallgrím heim í kjölfar sjálfsmorðsárásar þar sem tvær konur létust og þrír íslenskir friðargæsluliðar særðust. Hallgrímur var flugvallarstjóri í Kabúl og yfirmaður alþjóðlegu friðargæslunnar þar í nóvember í fyrra þegar íslensku friðargæsluliðarnir urðu fyrir sjálfsmorðsárás á Chicken Street. Íslendingarnir voru staddir í fjölfarinni götu í teppainnkaupum að frumkvæði Hallgríms þegar árásin var gerð. Í kjölfarið kallaði íslenska utanríkisráðuneytið hann heim og leysti hann frá störfum fyrr en áætlað hafði verið. Nú er Hallgrímur kominn aftur til starfa á Kabúlflugvelli, í ráðgjafastarf, sem snýst um það að gera úttekt á rekstri flugvallarins og gera áætlun um hvernig best verði staðið að því að breyta honum úr herflugvelli í borgaralegan flugvöll undir stjórn Afgana sjálfra. Það var Atlantshafsbandalagið sem leitaði sérstaklega til Íslands eftir aðstoð í þessu verkefni vegna reynslu Íslendinga af rekstri flugvalla og flugvallastjórn, bæði í Pristina í Kosovo og Kabúl. Beiðnin barst utanríkisráðuneytinu sem sendi hana í samgönguráðuneytið sem leitaði til Flugmálastjórnar. Þar hefur Hallgrímur starfað sem yfirmaður í mörg ár. Aðspurður hvers vegna brugðist sé við beiðni NATO með því að senda Hallgrím til Kabúl segir Heimir Már Pétursson, upplýsingafulltrúi Flugmálastjórnar, að fjöldi sérfræðinga hjá Flugmálastjórn komi að verkefninu og hæfasta fólkið sé einfaldlega sett í það. Hann neitar því að með þessu sé verið að gefa utanríkisráðuneytinu langt nef.   Hvorki Davíð Oddsson utanríkisráðherra né Sturla Böðvarsson samgönguráðherra vissu um þetta mál þegar það var borið undir þá í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×