Innlent

Hyggja á endurbætur á sláturhúsi

Dalamenn hafa ákveðið að verja tugmilljónum króna í endurbætur á sláturhúsinu í Búðardal til að unnt verði að hefja slátrun þar í haust. Með því skapast tuttugu heilsársstörf í Dalabyggð. Afurðastöðin í Búðardal var um árabil einn helsti burðarásinn í atvinnulífi Dalasýslu enda þriðji stærsti atvinnuveitandi sýslunnar. Þarna var ekki aðeins sláturhús heldur einnig kjötvinnsla þar sem tíu til fimmtán manns unnu allt árið um kring. Starfsfólki fjölgaði svo verulega í sláturtíð á haustin en ársverkin voru talin 25 talsins. En nú eru vinnslusalirnir tómir. Kjötvinnslan lagðist af vorið 2003 og síðast var slátrað haustið 2003. Dalamenn hugðust slátra þarna í fyrra en var þá synjað um sláturleyfi. Haraldur Líndal Haraldsson, sveitarstjóri Dalabyggðar, segir að Dalamenn ætli engu að síður að berjast og á aðalfundi sláturhússins hafi verið samþykkt að hefja endurbætur á húsinu. Stefnt sé að því að ljúka þeim fyrir 1. ágúst þannig að húsið standist allar kröfur varðandi sláturleyfi og annað slíkt. Áætlað er að endurbæturnar kosti 45 milljónir króna. Malbika þarf hlaðið, betrumbæta húsið að utan og endurnýja starfsmannaaðstöðu. Sláturhúsið er í eigu Byggðastofnunar og Dalabyggðar en reksturinn verður leigður Dalalambi, fyrirtækis í eigu sveitarfélagsins. Haraldur segir það skipta miklu máli að starfsemi sé í sláturhúsinu því það skapi að minnsta kosti 20 heilsársstörf og hafi velt um 30-40 milljónum í launagreiðslur. Þetta sé því gríðarlega stórt mál fyrir samfélagið í Dölunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×