Lífið

Guðfinna elsti Íslendingurinn

Nafn Guðfinnu Einarsdóttur verður skráð í sögubækur en í dag náði hún þeim áfanga að verða elsti Íslendingur sem sögur fara af. Elsti núlifandi jarðarbúinn er 115 ára gömul kona. Guðfinna Einarsdóttir er orðin 108 ára og 46 daga gömul. Hún hefur lifað degi lengur en Halldóra Bjarnadóttir sem áður var skráð sem langlífasti Íslendingurinn. Í viðtali á Stöð 2 í fyrradag sást vel hve Guðfinna er ern, hún gengur um, hlustar á útvarp og hefur ágætt minni. Guðfinna sagðist þá einnig geta prjónað en ekki nenna því núorðið. En er það algengt í heiminum að svo aldraðir einstaklingar séu svo hressir sem Guðfinna? Pálmi V. Jónsson öldrunarlæknir segir að það verði æ algengara. Elsta kona í heiminum í dag sé 115 ára en sú elsta sem vitað sé um hafi verið frönsk og hafi orðið 123 ára. Hún hafi hjólað þegar hún var 100 ára. Elsti núlifandi karlinn sé japanskur og sé 114 ára. Pálmi segir að því sé spáð að fólki 100 ára og eldri muni fjölga tuttugufalt fram til ársins 2050. Þegar spurt er hvað valdi langlífi nefnir Pálmi samspil erfða og umhverfis. Einhverjir erfðaþættir séu klárlega inni í myndinni. Þá þekki vísindamenn ekki enn á hjá mönnum en viti töluvert um þá hjá öðrum dýrategundum. Þar að auki spili lífsstíllinn inn í. Hæfileg hreyfing alla ævi sé eina sannaða yngingarmeðalið og jákvæður lífsstíll, eins og að forðast reykingar og óhóf í neyslu matar og drykkjar, stuðli að því að fólk nái háum aldri og hafi góða heilsu í ellinni. Sjálf telur Guðfinna skapferli skipta máli. Hún hafi alla tíð verið róleg og ekki verið með neina frekju og vargaskap.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.