Innlent

Háskólasetur stofnað á Ísafirði

Háskólasetur á Ísafirði er stórt skref í menntamálum Vestfirðinga en þar verður boðið upp á fjölbreytt nám sem tengist atvinnugreinum á Vestfjörðum. Háskólasetrið á Ísafirði var stofnað þann 12. mars síðastliðinn og eru allir háskólarnir í landinu stofnaðilar setursins auk rannsóknarstofnana sveitarfélaga og fyrirtækja á Vestfjörðum. Háskólasetrið mun taka til starfa í haust og það er ljóst að stofnun þess mun hafa mikla þýðingu fyrir Vestfirði. Tilkoma háskólasetursins mun auka framboð á háskólanámi til muna á Vestfjörðum og ferðalögum nemenda sem stunda háskólanám mun fækka. Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði, segir að með þessu sé í raun verið að búa til mjög nútímalegan háskóla sem byggist á blöndu af fjarnámi og staðbundnu námi sem eigi að byrja að þróa strax í haust. Um eitt hundrað nemendur á Vestfjörðum stunda nú háskólanám í fjarnámi hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða og segist Halldór búast við að strax í haust muni háskólasetrið taka til starfa og nemendur bætast ört í hópinn. Hann segir að boðið verði upp á það sem mest spurn verði eftir og það sem Vestfirðingar muni þróa sjálfir og byggist á sérstöðu þeirra. Þeir hafi ekki áhuga á að búa til enn einn háskólann sem bjóði upp á viðskiptafræði og lögfræði eða slíkt heldur vilji þeir geta kennt það í samstarfi við aðra háskóla. Vestfirðingar vilji þróa sitt eigið nám sem byggist á því sem verið sé að rannsaka á Vestfjörðum, svo sem þorskeldisrannsóknum, veiðarfærarannsóknum, snjóflóðarannsóknum, fjölmenningarmálum, sérstöðu Vestfjarða vegna Hornstrandarfriðlands og tónlist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×