Erlent

Hatrammar deilur um líknardráp

Skoðanamunur Bandaríkjamanna á líknardrápi endurspeglast í hatrömmum deilum aðstandanda heilaskaddaðrar bandarískrar konu. Málið hefur vakið heimsathygli en deilurnar snúast um það hvort halda eigi lífi í konunni eða leyfa henni að deyja. Málið hefur velkst í bandaríska dómskerfinu í heil sjö ár. Almenningur í Bandaríkjunum fylgist vel með þessari deilu sem hefur ekki aðeins verið farið fram í dómsölum heldur líka í fjölmiðlum. Málið komst enn á ný í hámæli í gær þegar læknar í Flórída í Bandaríkjunum urðu við dómsúrskurði og fjarlægðu rör sem flytur næringu til konunnar. Búist er við því að hún muni deyja innan hálfs mánaðar verði ákvörðun dómstóla ekki umsnúið. Hún heitir Terri Schiavo og er fjörutíu og eins árs. Hún varð fyrir heilaskaða eftir hjartastopp í kjölfar átröskunarsjúkdóma og læknar merkja engin viðbrögð hjá henni. Foreldrar konunnar eru á öðru máli, þeir segjast hafa orðið vör við viðbrögð og heilastarfsemi og hafa barist fyrir því að henni sé haldið á lífi. Eiginmaður hennar, sem hefur stofnað fjölskyldu með annarri konu, segir hins vegar að hún hefði aldrei viljað láta halda sér á lífi í þessu ástandi og berst fyrir því að henni verði leyft að deyja. Búið er að áfrýja úrskurðinum og báðar deildir Bandaríkjaþings hafa reyndar lagst gegn þessari niðurstöðu dómstóla en dómarinn hvikar hvergi og segist ekki bregðast við þrýstingi stjórnmálamanna. Tvisvar áður hefur næringarrör Schiavo verið fjarlægt en í bæði skiptin hefur því verið komið fyrir aftur vegna baráttu foreldra hennar. Jafnvel er talið að Bush Bandaríkjaforseti muni blanda sér í málið nú því haft er eftir talsmanni hans að hann fylgist grannt með framvindu mála og sé þeirrar skoðunar að ef einhver vafi sé í hugum manna eigi tvímælalaust að láta lífið njóta vafans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×