Innlent

Guðfinna jafnar aldursmet Halldóru

Elsti núlifandi Íslendingurinn, Guðfinna Einarsdóttir, jafnaði í dag aldursmet Halldóru Bjarnadóttur. Halldóra Bjarnadóttir varð 108 ára og 45 daga gömul en hún fæddist árið 1873 og lést árið 1981. Halldóra lifði 39.491 dag. Guðfinna Einarsdóttir náði í dag að jafna aldursmetið og á morgun verður Guðfinna búin að bæta einum degi við, verður þá 108 ára og 46 daga og þar með sá Íslendingur í sögunni sem lengst hefur lifað fyrr og síðar. Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi kom fram að Guðfinna er vel ern og hefur aldrei farið á elliheimili. Hún fæddist þann 2. febrúar árið 1897 í Ásgarði í Dalasýslu en ólst upp og bjó á Leysingsstöðum í Hvammssveit. Árið 1970 flutti hún til Reykjavíkur. Hún heyrir vel, minni hennar er gott og þótt sjónin sé farin að daprast hefur hún fótavist og gengur um heimili sitt í Reykjavík með því að styðjast við göngugrind, en hún býr í heimahúsi hjá dóttur sinni í Fossvogshverfi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×