Innlent

Leyfileg fjöldaslagsmál

Einu leyfilegu fjöldaslagsmálin á Íslandi fóru fram í gær á árvissum gangaslag Menntaskólans í Reykjavík. Málið snýst um að nemendur sjötta bekks reyna að hringja bjöllu sem jafnframt hringir þá inn í tíma. Neðri bekkingar reyna að koma í veg fyrir að bjöllunni sé hringt. Bjallan er á fyrstu hæð gamla skólahússins og eiga efri bekkingar að koma niður stiga hússins og berjast í gegnum þvögu neðri bekkinga sem varna þeim leið. Rektor skólans, Yngvi Pétursson, segir þessa hefð ævagamla. Fyrstu slagsmálin sem skráð séu í sögu skólans hafi orðið 1861 en þá á heimavistinni. Óljóst sé hvenær hefðin mótaðist í núverandi mynd en líklega hafi það verið í byrjun 20. aldar. Yngvi segir bæði stráka og stelpur taka þátt í slagnum. Ekki ganga allir heilir til skógar eftir slagsmálin, segir Yngvi. Nokkuð er um fleyðrur og skeinur en að sögn Yngva hafa engin alvarleg slys orðið á síðustu árum. Eftir því sem næst verður komist hefur sjöttu bekkingum aldrei mistekist ætlunarverk sitt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×