Innlent

Kvikmyndafyrirtæki fari á hausinn

Forstjóri Saga Film óttast að sjálfstæð fyrirtæki á sviði kvikmynda- og auglýsingaframleiðslu neyðist til þess að leggja upp laupana, verði frumvarp menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið óbreytt að lögum. Samkvæmt frumvarpi menntamálaráðherra fær Ríkisútvarpið meðal annars heimild til þess að standa að annarri starfsemi sem tengist starfsemi félagsins á sviði dagskrárgerðar, þ.á m. á sviði margmiðlunar eða öðrum sviðum sem tengjast fjölmiðlum. Getur Ríkisútvarpið gert þetta, hvort sem er innan eigin vébanda eða með því að standa að öðrum fyrirtækjum sem félagið á eitt eða með öðrum aðilum. Jón Þór Hannesson, forstjóri Saga Film, óttast að með þessari heimild sé vegið að samkeppnisstöðu og rekstri auglýsinga- og kvikmyndaframleiðslufyrirtækja. Hann segir þau einfaldlega munu leggja upp laupana vegna verkefnaskorts. Jón Þór telur ekki eðlilegt að Ríkisútvarpinu sé gert kleift að fara óhindrað á markaðinn og stofna fyrirtæki eitt sér, eða með öðrum, til þess að framleiða sjónvarpsefni. Í dag sé Ríkisútvarpinu ekki settar neinar skorður um að versla við utanaðkomandi fyrirtæki. „Ég veit að BBC var settur stóllinn fyrir dyrnar og sagt: Þið verðið að taka þetta mikið af fénu og setja það út fyrir húsið,“ segir Jón Þór.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×