Sport

Ætlar ekki að fela sig í hringnum

Það verður flugeldasýning á Broadway í kvöld þegar Íslendingar og Bretar mætast í boxhringnum. Boðið verður upp á mat og boxsýningu fyrir þá sem vilja en einnig er hægt að mæta eingöngu á hnefaleikasýninguna sem jafnframt verður í beinni útsendingu á Sýn. Meðal þeirra sem keppa er Skúli "Tyson" Vilbergsson en stóri bardagi kvöldsins er á milli Þórðar "Doddy" Sævarssonar og breska meistarans, Michael Bailey. Skipuleggjendur lofa svakalegum bardaga enda er Þórður stærsta von Íslands í hnefaleikaheiminum og Bailey besti boxari sem hingað hefur komið síðan ólympískir hnefaleikar voru leyfðir á ný. "Þetta verður rosalega skemmtilegt og ég er orðinn mjög spenntur. Ég geri mér samt vel grein fyrir því hversu öflugur maður þetta er. Hann skal samt fá að vinna fyrir hlutunum. Ég er ekki að fljúga hingað frá Danmörku til þess að fela mig í hringnum og hlaupa undan honum. Ég hjóla bara beint í hann," sagði Þórður nýlentur frá Danmörku þar sem að hann vann silfurverðlaun á danska meistaramótinu. Þórður, sem er 27 ára, hefur æft hnefaleika í sex ár en byrjaði ekki að keppa reglulega fyrr en hann flutti út til Danmerkur seinni hluta síðasta árs. Í Danmörku passar Þórður börn á daginn og æfir síðan hnefaleika af fullum krafti á kvöldin. "Ég hef bætt mig mikið eftir að ég flutti út enda umhverfið allt annað en hér heima þótt ég sé ekki að gera lítið úr því góða starfi sem menn eru að vinna hér," sagði Þórður sem ætlar sér að sigra á næsta danska meistaramóti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×