Sport

Button ver lið sitt

Jenson Button, ökumaður BAR Honda liðsins í Formúlu 1 hefur tekið upp hanskann fyrir lið sitt í kjölfar gagnrýni sem þeir urðu fyrir þegar þeir ákváðu að nýta sér glufu í keppnisreglunum í Ástralíukappakstrinum á dögunum. BAR liðið kallaði þá bíla sína inn á viðgerðarsvæðið skömmu fyrir lok keppninar, sem gerði það að verkum að samkvæmt reglum má liðið ræsa með nýjar vélar á Sepang-brautinni í Malasíu um helgina. Reglunum hefur nú verið breytt til að komast fyrir þessa smugu og Honda-liðið fær að öllum líkindum refsingu fyrir uppátækið í keppninni í Ástralíu.  Væntanlega þarf liðið að ræsa 10 sætum aftar en uppröðun í tímatökum segir til um, en þeir munu þó njóta þess að vera með nýjar vélar í bílunum og ætti það að gefa þeim nokkuð forskot. Jenson Button var hissa á þeirri gagnrýni sem lið hans hefur orðið fyrir í kjölfar atviksins.  "Reglur eru reglur og við fórum bara eftir þeim - ég get ekki séð hvað er að því". Liðum mun framvegis verða gert skylt að gera vel grein fyrir ástæðum þess að þau dragi sig úr keppni vegna vélabilana, til að koma í veg fyrir misnotkun á reglunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×