Innlent

Olíufélögin fá undanþágu

Samkeppnisráð hefur veitt Olíufélaginu, Olíuverzlun Íslands og Skeljungi undanþágu til að skipta upp tíu samreknum bensínstöðvum á milli sín. Þessi undanþága gildir til 1. maí 2005 og þarf uppskiptingunni að vera lokið fyrir þann tíma. Samkomulag olíufélaganna felst í því að það félag, sem hefur borið ábyrgð á rekstri viðkomandi bensínstöðvar, tekur yfir eignarhald hennar og rekstur. Þannig kaupir Skeljungur eignarhlut hinna félaganna í bensínstöðvunum í Ólafsvík, á Fáskrúðsfirði, Hvammstanga og í Þorlákshöfn. Olíufélagið kaupir eignarhlut hinna í bensínstöðvum á Ísafirði, Kirkjubæjarklaustri og Dalvík og Olís kaupir hlut hinna í stöðvunum á Ólafsfirði, í Stykkishólmi og á Siglufirði. Samkeppnisráð telur uppskiptin leiða til aukinnar samkeppni í smásölu á þessum svæðum og því efnahagslegra framfara. Félögin hafa lýst yfir að ekki verði reynt að hindra eða koma í veg fyrir samkeppni á þeim svæðum sem samkomulagið tekur til.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×