Innlent

Jafnræði kynjanna í Mjóafirði

Karlar og konur eru jafn mörg í Mjóafjarðarhreppi fyrir austan. Í hreppnum búa 38 manns, nítján karlar og nítján konur. Er með ólíkindum að kynjaskiptingin í heilu sveitarfélagi sé hnífjöfn, jafnvel þó sveitarfélagið sé fámennt. Í nýútkomnu hefti ritraðarinnar Hagtíðinda, sem Hagstofan gefur út, má sjá að fjölgað hefur um mann og mann þar eystra síðustu ár. Mjóifjörður er langur og mjór og er þorpið í firðinum kallað Brekkuþorp. Á bænum Brekku fæddist Vilhjálmur Hjálmarsson, sem sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn í tuttugu ár og var menntamálaráðherra eitt kjörtímabil. Eftir að þingmennskunni sleppti var hann meðal annars formaður útvarpsráðs. Innar í firðinum er bærinn Hesteyri og þar er bóndi Anna M. Guðmundsdóttir. Er hún í þeim hópi fólks sem hefur sett sterkan svip á mannlífið í landinu og kunn er umhyggja hennar fyrir dýrum og því fólki sem minna má sín. Lax er alinn í kvíum í firðinum og hafa nokkrir af því atvinnu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×