Erlent

Hóta að beita Taívana hervaldi

Kínverska þjóðþingið samþykkti í gærmorgun lög sem heimila að hervaldi verði beitt reyni Taívanar að ganga lengra en orðið er í átt til formlegs sjálfstæðis. Kínverski forsetinn Hu Jintao skipaði Kínaher á sunnudag að vera undir átök búinn. Þessi valdbeitingarhótun kínverskra stjórnvalda í garð Taívana hefur kallað fram sterk viðbrögð víða um heim. Stjórnvöld á Taívan fordæmdu þessa ráðstöfun og sögðu hana alvarlega ógn við öryggi í álfunni. Joseph Wu, sem fyrir hönd Taívanstjórnar stýrir stefnumótun í samskiptunum við Kína, sagði nýju lögin jafngilda "blankótékka" fyrir Kínastjórn að innlima Taívan með valdi. Kínastjórn lítur svo á að Taívan sé órjúfanlegur hluti Kína þótt Taívanbúar hafi stjórnað sér sjálfir síðan árið 1949, er kommúnistar komust til valda á meginlandinu. Talsmenn Kínastjórnar halda því fram að nýju lögunum sé aðeins ætlað að stuðla að friðsamlegri endursameiningu. Kæmi til átaka milli Taívan og Kína yrði það meiri háttar áfall fyrir stöðugleika í Asíu. Bandaríkin hafa tugþúsundir hermanna á svæðinu og hafa heitið því að koma Taívönum til aðstoðar ef á þá verður ráðist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×