Innlent

Domingo ánægður með tónleikana

Stórsöngvarinn Placido Domingo er ánægður með tónleikana sem fram fóru í Egilshöll í gærkvöldi. Þar tók þessi mikli söngvari lag Inga T. Lárussonar við ljóð Jónasar Hallgrímssonar, Ég bið að heilsa. Á fimmta þúsund manna hlýddu á stórsöngvarana Placido Domingo og Önu Mariu Martinez á tónleikum þeirra í Egilshöll í gærkvöldi. Domingo var ánægður með móttökur Íslendinga. Hann segir áhorfendur hafa verið stórhrifna og þeim hafi liðið vel á tónleikunum. Hljómurinn í húsinu hafi verið góður og þótt húsið hafi verið stórt hafi hann og Martinez fundið mjög fyrir nærveru áhorfenda, en móttökur þeirra hafi verið hlýjar og yndislegar. Og það er nóg að gera hjá þessum heimsþekkta stórsöngvara. Frá Íslandi heldur hann til Miami í Bandaríkjunum. Domingo segir að þar haldi hann tónleika en svo haldi hann til Chicago til að syngja í óperunni Valkyrjunum og í kjölfarið í Cyrano de Bergerac í Metropolitan-óperunni í New York. Domingo líkar vel á Íslandi og áður en hann hélt af landi brott snæddi hann hádegisverð í Bláa lóninu ásamt forseta Íslands. Hann segir landið undurfagurt og hreint. Á Íslandi nái maður andanum og geti slakað á, en landið sé einn af þeim fallegu stöðum í heiminum þar sem kyrrðin ríki enn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×