Erlent

Bannað að afla fjár

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa bannað Sinn Fein, stjórnmálaarmi Írska lýðveldishersins IRA, að afla fjár þar í landi. Ákvörðunin var tekin vegna grunsemda um þátttöku IRA í skipulagðri glæpastarfsemi. Leiðtoga Sinn Fein, Gerry Adams, og öðrum félögum í samtökunum hefur verið bannað að taka þátt í fjáröflunum í tengslum við árlega heimsókn þeirra til Bandaríkjanna í tilefni af degi heilags Patreks. Enn fremur hefur George W. Bush Bandaríkjaforseti hætt við að taka á móti Adams í Hvíta húsinu og Edward Kennedy, öldungadeildarþingmaður og þekktasti stjórnmálamaður Bandaríkjamanna af írsku bergi brotinn, hefur aflýst fundi sínum með honum. Að sögn Lundúnablaðsins The Times vinna bresk stjórnvöld að áætlun sem kemur í veg fyrir að Sinn Fein geti tekið á móti erlendum fjárframlögum. Áætlunin á að vera tilbúin fyrir mánaðamót. Slíkt bann yrði reiðarslag fyrir samtökin. Kveikjan að þessum aðgerðum er sögð vera hlutdeild hátt settra IRA-manna í morðinu á Robert McCartney í janúar síðastliðnum og ráninu á Northern Bank í Belfast í desember.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×