Erlent

Metfjöldi í Beirút

Miðborg Beirút varð enn einu sinni vettvangur fjölmennra mótmæla í gær þegar allt að 800.000 manns söfnuðust þar saman undir kjörorðunum "frelsi, sjálfstæði, fullveldi". Mánuður er síðan Rafik Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra, var myrtur en sá atburður hleypti af stað hrinu mótmæla. Þeir sem flykktust út á göturnar í gær eru andsnúnir ráðamönnum í Líbanon og hersetu Sýrlendinga í landinu. Fjöldafundurinn er svar þessa hóps við fundi Hizbollah-samtakanna í síðustu viku en þá fyllti hálf milljón sjía götur og torg höfuðborgarinnar. Í gær var liðinn mánuður síðan Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra, var drepinn, og minntist múgurinn þess með nokkurra mínútna langri þögn. Mótmælaspjöld gegn Lahoud forseta voru áberandi, svo og slagorð gegn Sýrlendingum. Sýrlendingar héldu í gær áfram að draga herlið sitt til baka frá herstöðvum í Líbanon. Þegar hafa 4.000 hermenn verið fluttir yfir landamærin og er búist við að flutningunum verði lokið í júní, rétt áður en Líbanir ganga til þingkosninga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×