Innlent

Íslenskt var í raun ódýrara

Fyrir fjórum árum var einnig gengið til samninga um viðgerðir á íslenskum varðskipum við pólsku skipasmíðastöðina Morska. Þá munaði tæpum sjö milljónum á íslensku tilboði og tilboði Morska. Í skýrslu VSÓ-ráðgjafar sem unnin var fyrir Félag járniðnaðarmanna árið 2001 um kostnað við siglingu varðskipa til Póllands, kom hins vegar fram að viðgerð hér heima hefði orðið nokkur hundruð þúsund krónum ódýrari. Í tilkynningu frá Samtökum Iðnaðarins kemur fram að viðgerðin á Tý hafi þá orðið tæplega 60 prósentum dýrari en samið var um og viðgerðin á Ægi hafi verið tæplega 90 prósentum dýrari. Í umræðum um þessa skýrslu á Alþingi í febrúar 2001, kom fram í máli Kristjáns Möller að kostnaður vegna siglingar, eftirlits og fleira hafi verið tæplega 7,5 milljónir fyrir hvert skip, en ekki 3,9 milljónir eins og Ríkiskaup hafi áætlað. Þá kom fram í svari Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðarráðherra að það væri hennar von að það útboð yrði til þess "að það verði betur og á annan hátt staðið að málum í framtíðinni hvað varðar viðgerðir á varðskipum og ýmis önnur mál sem snúa að útboðum af hálfu ríkisins."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×