Innlent

Engin umboðslaun vegna varðskipa

Pólska skipasmíðastöðin Morska Stocznia Remontova, sem samið var við um breytingar og endurbætur á varðskipunum Ægi og Tý hafa áður unnið verk fyrir Landhelgisgæsluna með milligöngu Atlas Ísaga hf. í Hafnarfirði. Atlas hefur einkaumboð fyrir Morska hér á landi, en í þetta skiptið fóru útboðsgögn ekki utan með milligöngu umboðsins og fær íslenska fyrirtækið því ekki umboðslaun. Grímur Gíslason framkvæmdastjóri Atlas segir það mjög óvanalegt. "Morska hélt fram hjá okkur í þessu máli. Þeir fengu þessi útboðsgögn áður en ég fékk þau í hendur." Samkvæmt upplýsingum frá Ríkiskaupum óskaði pólska skipasmíðastöðin eftir útboðsgögnum föstudaginn 17. desember á síðasta ári, en Atlas óskaði eftir þeim þremur dögum síðar. Auglýsingin var birt þann 15. desember. "Þeir voru í beinu sambandi núna og vildu ekkert við okkur tala. Við vorum ekkert rosalega kátir," segir Grímur. Júlíus S. Ólafsson, forstjóri Ríkiskaupa segir verkið hafa verið boðið út á öllu evrópska efnahagssvæðinu, og auglýst þar. Því sé ekkert við það að athuga að pólska fyrirtækið hafi óskað sjálft eftir útboðsgögnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×