Erlent

Loftslagsbreytingar valda bráðnun

Jöklar í Himalajafjallgarðinum bráðna nú á ógnarhraða sökum loftslagsbreytinga. Þessi bráðnun getur á næstu áratugum leitt til vatnsskorts hjá mörg hundruð milljónum manna. Í nýrri, ítarlegri skýrslu um breytingar á loftslagi í heiminum sem unnin er á vegum umhverfissamtakanna Wordlwide Fund for Nature kemur fram að gríðarleg flóð gætu orðið í Kína, Nepal og á Indlandi vegna bráðnunar stórra jökla í Himalajafjallgarðinum á næstu áratugum. Jöklarnir í Himalaja eru á hröðu undanhaldi vegna hlýnunar loftslags og það kallar á miklar umhverfisbreytingar. Það fyrsta sem gerist er að stærstu ár á svæðinu, eins og Ganges, Indus, Mekong og Yangtze, fyllast af leysingavatni og það veldur miklum flóðum. Flóðin eru skaðleg í sjálfu sér en það sem gerist í kjölfarið er hins vegar ekki síður alvarlegt og veldur enn meiri áhyggjum. Eftir þessi miklu flóð myndi vatnsyfirborð í þessum stóru ám nefnilega lækka til muna og það eru slæm tíðindi fyrir fólk í þessum löndum. Minnkandi vatn þýðir hugsanlega vatnsskort hjá hundruð milljónum manna. Lausnin á þessari vá, samkvæmt Worldwide Fund for Nature, er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka notkun endurnýtanlegra orkugjafa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×