Erlent

Taívanar segja hótanir óþolandi

Samskipti Kína og Taívans eru enn og aftur hlaupin í harðan hnút. Stjórnvöld í Kína hóta Taívönum hernaðaraðgerðum lýsi þeir yfir sjálfsstæði en ríkisstjórn Taívans segir hótanir Kínverja óþolandi. Kínverska þingið samþykkti í nótt lög sem kveða á um að Kínverjar megi beita Taívan hernaðaraðgerðum ef þeir lýsa formlega yfir sjálfstæði. Forseti Kína hefur þegar staðfest þessi lög. Þegar frumvarpið var lagt fram í síðustu viku heyrðust strax harðar gagnrýnisraddir frá Bandaríkjunum og eins frá stjórnvöldum í Taívan. Í Kína ríkti hins vegar mikill einhugur um frumvarpið sem var samþykkt með atkvæðum allra þingmanna, tæplega þrjú þúsund talsins. Fagnaðarlæti brutust út á meðal þingmanna þegar ljóst var að frumvarpið yrði að lögum. Forsætisráðherra Kínverja segir að lögin beinist ekki að íbúum Taívans og ekki standi til að fara með hernaði gegn landinu. Lögunum sé fyrst og fremst ætlað að marka skýra stefnu í samskiptum þjóðanna tveggja. Stjórnvöld í Taívan hafa hins vegar brugðist illa við og segja þetta ögrun sem muni hafa alvarleg áhrif á stöðugleika á svæðinu. Kína lítur enn á Taívan sem hluta af meginlandinu og hefur síðustu ár jafnt og þétt verið að byggja upp hernaðarmátt sinn við Taívanssund. Á hinn bóginn eru Bandaríkin einn helsti bandamaður Taívansstjórnar og hafa heitið að koma landinu til varnar geri Kína atlögu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×