Innlent

Miltisbrandssýkta svæðið enn ógirt

Enn er ekki búið að reisa girðingu um svæðið í Vatnsleysustrandarhreppi þar sem hross sýktust af miltisbrandi í desember í fyrra. Hrossin voru á beit við bæinn Sjónarhól á Vatnsleysuströnd. Þrjú hross drápust og einu var lógað en hræin voru brennd í kjölfarið. Að sögn Gunnars Arnar Guðmundssonar héraðsdýralæknis er búið að taka ákvörðun um að reisa þrönga girðingu í kringum hólfið þar sem hrossin voru, samningar standi yfir við verktakann sem muni reisa hana og hafist verði handa sem fyrst. Gunnar Örn minnir á að öll lausaganga búfjár er bönnuð í Vatnsleysustrandarhreppi og því eigi engar skepnur að vera þarna á ferðinni. Hann segir menn sammála um að ekki sé hætta á ferðum fyrir menn sem eigi leið þarna um. Miltisbrandur barst til Íslands með afrískum skinnum árið 1860 en sýking af þessu tagi hefur ekki komið upp síðan árið 1965. Vitað er um að minnsta kosti 60 staði á landinu þar sem miltisbrandssýkt hræ hafa verið grafin en í fréttum um helgina sagði Sigurður Sigurðarson, dýralæknir á Keldum, að hann hefði heyrt af fasteignasölum sem réðu landeigendum frá því að láta vita af slíkum gröfum. Það er auðvitað stórhættulegt því brýnt er að kortleggja betur hvar miltisbrandsgró geta leynst í jörðu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×