Innlent

Hefðarkonur í söðli

Um 200 börn og unglingar sýndu listir sínar á sýningunni Æskan og hesturinn sem var haldin í þrettánda sinn um helgina í Reiðhöllinni í Víðidal. Talið er að um 3.500 manns hafi komið að berja börn og hesta augum enda margt í boði. Flest hestamannafélög af sunnanverðu landinu voru með atriði á sýningunni sem byggðist upp á skrautreið í mismunandi búningum. Stúlkurnar á myndinni höfðu æft atriði sitt í tvo mánuði. Þær voru einstaklega glæsilegar í íslenskum skaut- eða þjóðbúningi. Þá sátu þær allar í söðli sem þykir ekki auðvelt fyrir þá sem vanir eru að sitja klofvega á hesti. Edda Rún Ragnarsdóttir þjálfari sagði þetta hafa tekið heilmikið á stelpurnar og að konur til forna hefðu verið miklar hetjur að ríða í söðli. Annars hefði mesti höfuðverkurinn verið að finna söðla því þeir eru jú ekki mikið notaðir nú til dags. Þess má geta að ein stúlknanna sat stóðhestinn Kjark frá Egilsstaðabæ sem er margverðlaunaður gæðingur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×