Innlent

Hreyfing sem þunglyndislyf

Hreyfing hefur áhrif á sömu taugaboðefni og þunglyndislyf og er það sterk vísbending um að það sé hægt að nota hreyfingu sem einn þátt í meðhöndlun þunglyndissjúklinga. Þetta segir Ingibjörg H. Jónsdóttir, lektor við Institut för Stressmedicin í Svíþjóð, sem ræddi rannsóknir sínar um áhrif hreyfingar á þunglyndi á málþingi sem Hugarafl, samtök geðsjúkra á batavegi, héldu í gær. Hreyfing er eitt af þeim málefnum sem brenna á notendum geðheilbrigðisþjónustu hér á landi og hefur verið töluvert í umræðunni að undanförnu. Ingibjörg segir hreyfingu fyrst og fremst hjálpa fólki með væg þunglyndiseinkenni, hreyfing komi alls ekki í staðinn fyrir lyf í erfiðu þunglyndi. Þó sé hreyfing góð sem viðbót fyrir alla þunglyndissjúklinga. Í Svíþjóð er vinnan komin langt á veg að sögn Ingibjargar. Þar sé verið að vinna að því að setja þessar hugmyndir inn í heilbrigðiskerfið þannig að læknar og sjúkraþjálfarar geti skrifað lyfseðla og svokallaða hreyfingarseðla. Þá þurfi að koma því í gegn að hreyfingarseðill skipti jafn miklu máli og lyfseðill. Nú segir hún mikilvægt að byggja í kringum þetta kerfi þannig að sjúklingar geti leitað eitthvað með sinn hreyfingarseðil. Ingibjörg sagðist ekki hafa fylgst mikið með þróun mála hér á landi en sagði umræður um svipað kerfi vera í gangi á hinum Norðurlöndunum. Ingibjörg segir ótvírætt að þetta sé ódýrari kostur en lyfjagjöf því þótt lyfjagjöfinni sé ekki hætt með öllu sé hægt að minnka hana. Ingibjörg kom til landsins í boði sjúkraþjálfafélagsins. Hún heldur erindi á aðalfundi sjúkraþjálfa og málþingi þeirra á miðvikudag. Þar kemur hún til með að ræða um streitu, kulnunareinkenni og þunglyndi, og áhrif hreyfingar á þessa þætti. Þórólfur Árnason, fyrrverandi borgarstjóri, var fundarstjóri á málþinginu. Hann var sammála Ingibjörgu um það að hreyfing væri eitt af mikilvægustu málum til að halda andlegri heilsu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×