Innlent

Fólk gekk út af sýningu Pilobolus

Um tugur manna gekk óánægður út við upphaf sýningu danshópsins Pilobolus í Laugardalshöll í fyrrakvöld. Ástæðan var að þeir sáu illa eða alls ekkert á sviðið og gátu því ekki notið þess sem þeir höfðu greitt tæpar átta þúsund krónur fyrir. Söngvaskáldið Hörður Torfa var í þeim hópi. "Þetta var afar ófagmannlega gert. Það var illa raðað í salinn og sviðið alltof lágt," segir hann. "Þá voru skjáir sitt hvoru megin við sviðið en annar þeirra var bilaður. Og ég keypti mig ekki inn til að horfa á sjónvarp." Herði gremst þetta mjög enda hafði hann gefið sambýlismanni sínum miðana að gjöf. Ætluðu þeir að eiga ánægjulega kvöldstund saman. En það fór á annan veg. "Kvöldið var ónýtt." Ísleifur Þórhallsson, hjá fyrirtækinu Event sem stóð að sýningunni, viðurkennir mistökin. "Þetta var klúður hjá okkur, sviðið var of lágt." Hann segist miður sín yfir þessu og ætlar að reyna að græða sárin. Hann lofar að hafa samband við alla sem gengu út og eins hina sem þurftu að sitja annars staðar en þeir ætluðu sér. Sá hópur telur á milli 20 og 30 manns. "Þetta var ömurlegt en við reynum að bæta fólki þetta upp," segir hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×