Innlent

Vill söluna hafna yfir allan vafa

Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Símans, hefur sagt sig úr stjórn Bakkavarar, Almenna lífeyrissjóðsins og Sindra hf. í kjölfar frétta á Stöð 2 þar sem vakin var athygli að seta hans í þessum nefndum væri vafasöm með tilliti til fyrirhugaðrar sölu Símans. Brynjólfur er ósammála því og segir enga stöðu eða hagsmunaárekstra vera fyrir hendi sem gefa tilefni til þess að hann víki úr stjórnum þeirra fyrirtækja sem hann á sæti í. Hann víki því sæti í þessum stjórnum eingöngu með hagsmuni Símans að leiðarljósi og til að söluferli fyrirtækisins verði hafið yfir allan vafa. Hann tekur það fram að stjórn Símans hafi vitað af veru hans í þessum stjórnum og hafi verið henni samþykk. Síminn sé skráður í Kauphöll Íslands og starfi eftir reglum verðbréfamarkaðarins um stjórnarhætti og meðferð innherjaupplýsinga. Ekki náðist í Brynjólf í gær vegna málsins þar sem hann var í flugi á leið til Bandaríkjanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×