Innlent

Hreyfing í stað lyfja

Læknar á Norðurlöndum geta víða ávísað hreyfingu í stað lyfja. Ingibjörg H. Jónsdóttir, lektor við sænsku streiturannsóknarstofnunina, segir að rannsóknir sýni að hreyfing hafi áhrif á sömu boðefni í heilanum og þunglyndislyf. Enginn slíkur valkostur er í íslenskri geðheilbrigðisþjónustu og sjúkraþjálfun hefur orðið fyrir barðinu á niðurskurðarhnífnum á geðdeild Landspítalans. Ingibjörg hélt fyrirlestur á málþingi Hugarafls, samtaka notenda geðheilbrigðisþjónustunnar, um áhrif hreyfingar á þunglyndi en hún hefur rannsakað það sérstaklega. Hún segir þau taugaboðefni sem þunglyndislyfin hafi áhrif á séu þau sömu og hreyfingar hafa áhrif á. Ingibjörg segir að þótt áhrifin hafi verið þekkt í langan tíma sýni nýjar rannsóknir að hreyfing gefi jafnvel enn betri raun en áður var haldið. Hreyfing komi þó ekki í staðinn fyrir lyf hjá þeim sem eigi við erfitt þunglyndi að stríða.   Anna Sigríður Pálsdóttir læknanemi, sem hefur átt við þunglyndi að stríða, segir að hreyfing sé vanmetin í meðferðinni. Ekki sé hægt að ná varanlegum bata nema hugað sé að grundvallarþáttum eins og hreyfingu. Hún hafi sjálf notið sálfræðiþjónustu, iðjuþjálfunar og sjúkraþjálfunar þegar hún lagðist inn á geðdeild. Anna þakkar því að miklu leyti þann góða árangur sem hún náði. Núna sé hins vegar búið að skera niður og í kjölfarið allri sjúkraþjálfun hætt. Hún segir öfuga þróun því vera að eiga sér stað á þessu sviði miðað við annars staðar, þó ýmislegt gott sé að gerast.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×