Innlent

Varhugavert að vera á ferð

Hafísinn er farinn að trufla skipaumferð fyrir norðan land og er varað við siglingaleiðum. Hafísinn heldur áfram að færast nær landi og er kominn inn á norðanverða Austfirði. Hafísinn fyrir norðan land hefur enn verið að færast nær landi og er orðinn nokkuð mikill í Húnaflóa, Skagafirði og á norðanverðum Austfjörðum. Greiðst hefur úr ísnum við Grímsey þar sem hann hefur færst sunnar. Þór Jakobsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að næsta sólarhringinn megi búast við að hafísinn muni halda áfram að færast nær landi vegna sterkrar norðaustanáttar og segir hann að næsta sólarhringinn muni ísinn safnast á ströndina og inn í firði landsins. Ísinn er þegar kominn inn í Vopnafjörð. Þór segir ekki útilokað að ísinn geti farið inn á sunnanverða Austfirði eins og Mjóafjörð þar sem óttast er um fiskeldi. Skipstjóri á Björgvini EA-311 breytti í dag áætlunum sínum vegna hafíssins og hætti við að landa afla á Dalvík eins og til stóð og var þess í stað landað á Eskifirði. Jón Axelsson, skipstjóri á Júpiter ÞH-363, segir siglingaleiðina frá Horni og að miðjum Bakkaflóa mjög varhugaverða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×