Innlent

Smyrill réðst á páfagauk

Smyrill gerði ítrekaðar tilraunir til að hremma páfagauk á Hornafirði sl. mánudag en páfagaukurinn hafði verið settur í búr út í garð þar sem hann átti að njóta veðurblíðunnar. Börn voru vitni að árásum smyrilsins og héldu í fyrstu að um uglu væri að ræða. Eigandi páfagauksins, Heimir Karlsson, segir að páfagaukurinn hafi brugðist skelkaður við í fyrstu en vaxið sjálfstraust þegar smyrillinn náði ekki til hans. "Smyrillinn steypti sér með látum á búrið og hamaðist á því en án árangurs. Viðureignin stóð í þrjá tíma og áður en henni lauk reyndi páfagaukurinn að slá til smyrilsins," segir Heimir. Björn G. Arnarson, fuglaáhugamaður á Höfn, og Heimir náðu í sameiningu að fanga smyrilinn í háf og reyndist hann illa haldinn og að öllum líkindum veikur. Björn tók fuglinn og reyndi að hressa hann við en hann dó eftir rúman sólarhring.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×