Innlent

Hafís fyrir öllu Norðurlandi

Hafís er nú fyrir öllu Norðurlandi. Í gærkvöldi var hann skammt undan Grímsey en að sögn Theódórs Hervarssonar, veðurfræðings á Veðurstofunni, hefur ástandið versnað. Ísinn er nú kominn upp að eyjunni og umlykur hana alveg. Í vændum er harðnandi norðanátt og því má búast við að ísinn reki nær landi að sögn Theódórs. Hann segir sumar siglingaleiðir orðnar varasamar, kannski sérstaklega norður af Melrakkasléttu. Að sögn Theódórs mun draga úr norðanáttinni eftir helgi en það fer síðan eftir vindáttum hvernig framhaldið verður; í raun gæti ís farið inn á firði á Austurlandi, auk þess sem Húnaflói gæti fyllst og ís ræki að landi á Ströndum. Eins og fram kom umlykur hafís nú Grímsey og því spurning um samgöngur á sjó til og frá eynni. Theódór kveðst ekki hafa heyrt hvort stærri skip eigi möguleika á að brjótast í gegn en Landhelgisgæslan fer í ískönnnunarflug nú síðdegis og munu þá nánari upplýsingar að öllum líkindum liggja fyrir. Óli Bjarni Ólason, sjómaður í Grímsey, segir ís allt í kringum eyjuna. Hann er þó ekki mikill heldur er um að ræða stakar spangir. Að sögn Óla var ísinn rétt kominn niður fyrir sjóndeildarhringinn í gær en í morgun var hann svo kominn alveg að eyjunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×